Dagný Lísa skoraði 47 stig í tapleik

Dagný Lísa skoraði 47 stig fyrir Hamar-Þór í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór beið lægri hlut þegar liðið mætti Ármanni í fyrsta leik í 8-liða úrslitum 1. deildar kvenna í körfubolta í dag.

Leikurinn fór fram á heimavelli Ármanns í Kennaraháskólanum og þar voru Ármenningar í góðum gír í upphafi leiks. Staðan var 26-11 eftir 1. leikhluta en Hamar-Þór minnkaði muninn í 37-26 fyrir hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn, Ármann leiddi lengst af en Hamar-Þór náði að jafna 66-66 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir af leiknum. Þeim tókst hins vegar ekki að komast yfir því Ármenningar voru komnir í bónus og röðuðu niður tíu vítaskotum á síðustu tveimur mínútunum. Lokatölur urðu 78-70.

Dagný Lísa Davíðsdóttir fór gjörsamlega á kostum í liði Hamars-Þórs. Hún skoraði 47 stig, eða 67% stiga liðsins. Þar að auki tók hún 19 fráköst varði 3 skot og fiskaði 8 villur.

Liðin mætast næst í Hveragerði á sunnudaginn, en tvo sigra þarf til að komast áfram í undanúrslitin.

Tölfræði Hamars-Þórs: Dagný Lísa Davíðsdóttir 47/19 fráköst/3 varin skot, Hrafnhildur Magnúsdóttir 8/7 fráköst/8 stoðsendingar, Perla María Karlsdóttir 5, Dagrún Inga Jónsdóttir 3, Helga María Janusdóttir 3, Elektra Mjöll Kubrzeniecka 2, Hildur Björk Gunnsteinsdóttir 2, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 7 fráköst.

Fyrri greingímaldin í Gamla sláturhúsinu
Næsta greinÍbúar í Lyngheiði bíða spenntir eftir götusóparanum