Dagný Lísa íþróttamaður ársins í Ölfusinu

Dagný Lísa Davíðsdóttir íþróttamaður Ölfuss árið 2022. Ljósmynd/Ölfus

Dagný Lísa Davíðsdóttir körfuknattleikskona úr Fjölni var kjörin íþróttamaður Ölfuss árið 2022 en verðlaunin voru afhent um síðustu helgi.

Dagný Lísa var valin mikilvægasti leikmaður Subway deildar kvenna á síðasta tímabili þar sem hún leiddi Fjölni til deildarmeistaratitils, þess fyrsta hjá félaginu í boltagreinum í efstu deild. Einnig var hún valin í A-landslið Íslands á síðasta tímabili.

Átta íþróttamenn auk Dagnýjar voru tilnefndir í kjörinu; körfuknattleiksfólkið Emma Hrönn Hákonardóttir og Tómas Valur Þrastarson, hestakonurnar Glódís Rún Sigurðardóttir, Hulda Vaka Gísladóttir, Unnur Rós Ármannsdóttir og Védís Huld Sigurðardóttir, kylfingurinn Svanur Jónsson og knattspyrnumaðurinn Þorkell Þráinsson.

Þá fengu þrettán íþróttamenn viðurkenningar fyrir að hafa fagnað Íslandsmeistara- eða bikarmeistaratitlum eða verið valdir í landsliðshópa á árinu 2022.

Fyrri greinFjöldi óhappa í Víkinni á sunnudag
Næsta greinFagverk verktakar buðu lægst í Þrengslaveg