Dagný gengin til liðs við Selfoss

Rangæingurinn Dagný Brynjarsdóttir er gengin í raðir Selfoss frá Bayern Munchen og mun leika með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Samningur Dagnýjar við Bayern rann út fyrr í maí og í framhaldinu hafði hún komist að samkomulagi við lið í bandarísku atvinnumannadeildinni og var á leiðinni út til að skrifa undir.

Í gærkvöldi kom hins vegar í ljós að ekkert yrði af því að hún gengi til liðs við bandaríska liðið vegna óánægju annarra liða í deildinni. Leikmenn í Bandaríkjunum þurfa að fara í gegnum svokallað leikmannaval og þegar fréttist að Dagný væri á leið til Bandaríkjanna kvörtuðu önnur lið í deildinni yfir því að Dagný færi ekki í gegnum formlegt valferli.

„Þeir sem eru yfir deildinni buðu mér að fara í gegnum lotterí, þar sem liðið í níunda sæti fengi níu kúlur í pottinum, liðið í áttunda sæti átta kúlur og svo framvegis. Svo yrði dregið um það í hvaða lið ég færi og ég þyrfti að vera þar í eitt og hálft ár. Ég var ekki tilbúin í það því ég vildi vita í hvaða lið ég væri að fara,“ sagði Dagný í samtali við sunnlenska.is en hún hætti í kjölfarið við að fara til Bandaríkjanna.

„Þegar ég fór til Bayern þá renndi ég blint í sjóinn, vissi að ég væri að fara í stóran klúbb en vissi svosem ekki meira. Ég var ekki tilbúin að fara til Bandaríkjanna í eitthvað lið þar sem ég þekkti ekki metnað þjálfarans eða hvernig aðstaðan væri.“

Þetta kom í ljós klukkan tíu í gærkvöldi og ég svaf ekkert í nótt. Ég var búin að segja nei við öll liðin á Íslandi, í Þýskalandi og eitt lið í Svíþjóð. Ég hringdi í Gunna [Selfossþjálfara] í gærkvöldi og spurði hvort ég mætti koma í Selfoss því mig langaði til þess að spila fótbolta. Ég er ennþá atvinnumaður þó að ég sé hérna, ég veit ekki hvert næsta skref verður, hvort ég fer út í júlíglugganum eða á næsta ári. En ég var að minnsta kosti ekki tilbúin til þess að spila ekkert þangað til 15. júlí. Ég veit að hverju ég geng á Selfossi, þetta er einn af toppklúbbunum á Íslandi með toppstelpum og frábærri aðstöðu og Gunni er toppþjálfari og hvernig hugsað er um liðið er frábært. Svo verður bara að koma í ljós seinna í sumar hvort ég fer eitthvað annað í júlíglugganum.“

Okkur er spáð 3. sæti og ég er komin hingað til þess að sjá til þess að við verðum ofar en í 3. sæti. Ég sat í stúkunni á Fylkisvellinum í gær og það var rosalega erfitt, en þá vissi ég ekkert að ég væri að fara að spila með Selfoss. Þetta er í fyrsta sinn sem ég er á Íslandi og ekki að spila í Pepsi. Ég hefði alveg verið til í að reima á mig skóna í hálfleik og hjálpa þeim eitthvað,“ sagði Dagný létt að lokum.

Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, var vitanlega ánægður með komu nýja leikmannsins. „Við erum að fá einstaklega góðan leikmann og góðan karakter. Dagný hefur vitað af okkar áhuga lengi og hún hefur sagt það áður í fjölmiðlum að Selfoss sé hennar klúbbur á Íslandi. Þegar þetta kom upp þá leitaði hún til okkar og við til hennar á móti og það tók bara daginn í dag.“

Fyrri greinBenóny sæmdur silfurmerki HSK
Næsta greinGeymar og Flassbakk Sirru