Dagný ekki með gegn Ítalíu

Dagný fagnar marki með landsliðinu. Mynd úr safni. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Dagný Brynjarsdóttir mun ekki koma til móts við A-landslið kvenna í knattspyrnu fyrir vináttuleikina tvo gegn Ítalíu.

Dagný, sem leikur með West Ham, greindist með COVID-19 í prófi fyrir brottför frá Englandi, en fékk svo neikvætt úr samskonar prófi degi síðar líkt og allt lið West Ham.

„Í ljósi þess að hún greindist jákvæð í fyrra prófinu mun hún vera í einangrun á Englandi. Því er ljóst að hún mun ekki koma til móts við liðið á Ítalíu og missir af báðum leikjunum. Ákveðið hefur verið að ekki verði annar leikmaður kallaður inn í hópinn í stað Dagnýjar,“ segir á vef KSÍ.

Ísland mætir Ítalíu í tveimur leikjum, á morgun kl. 14 og á þriðjudag á sama tíma. Leikirnir fara fram í Coverciano á Ítalíu.

Fyrri greinSjaldséður gestur í Mýrdalnum
Næsta greinSamkaup áforma að opna Kjörbúð á Hellu