Cotton stigahæstur í fyrsta leik

Hamar tapaði fyrir úrvalsdeildarliði Keflavíkur, 83-98, í Lengjubikar karla í körfubolta í kvöld. Nýr liðsmaður fór fyrir Hamri í stigaskoruninni.

Hamar hefur fengið leikstjórnandann Brandon Cotton til liðs við sig en Cotton var leystur undan samningi við Snæfell í gær, eftir að hafa leikið þrjá leiki með liðinu í Iceland Express deildinni í vetur.

Þrátt fyrir gott framlag Cotton í leiknum leiddi Keflavík frá fyrstu mínútu. Gestirnir komust í 2-14 eftir fjórar mínútur en staðan að loknum fyrsta leikhluta var 15-19 eftir góðan sprett Hamars.

Annar leikhluti var jafn, Keflavík reyndi að slíta sig frá Hamri sem svaraði alltaf og munurinn varð mestur átta stig. Staðan í hálfleik var 35-37.

Keflavík byrjaði betur í þriðja leikhluta og náði 21 stigs forskoti, 42-63, en Hamar náði að minnka muninn niður í 11 stig, 58-69, á lokamínútum leikhlutans.

Bjartmar Halldórsson skoraði fjögur fyrstu stig síðasta fjórðungsins og minnkaði muninn í 62-69 en þá tóku Keflvíkingar aftur við sér og eftir það var aldrei spurning hvoru megin sigurinn myndi lenda.

Brandon Cotton skoraði 35 stig í leiknum, Terrence Worthy 15, Bjartmar Halldórsson og Emil Karel Einarsson 7, Ragnar Nathanaelsson og Louie Kirkman 6, Svavar Páll Pálsson 3 og þeir Bjarni Rúnar Lárusson og Eyþór Heimisson skoruðu 2 stig hvor.