Copy/paste: Ótrúlegur bikarsigur Selfosskvenna

Kvennalið Selfoss er komið í 8-liða úrslit Borgunarbikarsins eftir ótrúlega – en samt ekki – endurkomu gegn Val á JÁVERK-vellinum í dag. Lokatölur urðu 3-2.

„Þetta var erfiður leikur en mjög sætur sigur. Okkar leikur var til skammar í fyrri hálfleiknum enda vorum við mjög ósáttar í leikhléinu. Við fórum vel yfir málin og þó að Valur hafi bætt við marki strax í upphafi seinni hálfleiks þá höfðum trú allan tímann. Við erum blóðsugur sem hætta aldrei,“ sagði Heiðdís Sigurjónsdóttir, sem skoraði sigurmark leiksins í uppbótartíma.

„Við gáfum í eftir fyrsta markið, það gaf okkur meiri trú á þessu,“ sagði Heiðdís, en hafði hún trú á því að aukaspyrna hennar frá miðju í uppbótartíma myndi hafna í netinu?

„Nei og já, ég var alltaf búin að senda á hrúguna inni í teig en ég sá að markvörðurinn stóð framarlega þannig að ég ákvað að setja boltann á markið. Þetta var semi-heppni en þetta var skot, ég var að miða á markið,” sagði Heiðdís létt, en hún vill fá eitthvað krefjandi verkefni í 8-liða úrslitunum.

„Já, heimaleik á móti krefjandi liði. Eitthvað erfitt verkefni, við erum bestar þannig.“

Selfoss ekki með í upphafi
Liðin mættust í undanúrslitum á Selfossvelli í fyrra. Þar komst Valur í 0-2 í fyrri hálfleik en Selfoss kom til baka og skoraði sigurmarkið í uppbótartíma. Það nákvæmlega sama var uppi á teningnum í leiknum í dag.

Selfosskonur voru ekki með í fyrri hálfleik, Valur stjórnaði umferðinni algjörlega og Elín Metta Jensen kom þeim yfir á 14. mínútu. Selfoss fékk ekki færi í fyrri hálfleiknum og gat þakkað Chanté Sandiford fyrir að munurinn var ekki meiri.

Valur komst svo í 0-2 strax á þriðju mínútu seinni hálfleiks þegar Selfossvörnin opnaðist og Margrét Lára Viðarsdóttir komst ein innfyrir. Það er yfirleitt ávísun á mark.

Gestirnir höfðu áfram töglin og hagldirnar og það var ekki fyrr en á 80. mínútu að Selfyssingar fengu almennilegt færi – sem varð að marki. Lo Hughes slapp þá í gegn og skoraði af öryggi.

Markið gaf Selfyssingum trú á verkefninu og á 90. mínútu tók Hughes aukaspyrnu úti á velli sem sigldi í gegnum allan pakkann og framhjá Söndru Sigurðardóttur í marki Vals.

En ævintýrið var ekki úti. Á 92. mínútu fengu Selfyssingar aukaspyrnu við miðlínu vallarins. Heiðdís tók spyrnuna, beint á markið, og Sandra missti hann milli handa sér, yfir sig í netið. Sannarlega dýrkeypt mistök hjá landsliðsmarkmanninum.

Á lokaandartökum leiksins fengu Valskonur svo dauðafæri en Chanté Sandiford sýndi að hún er einn besti markvörður kvennaboltans á Íslandi þegar hún náði með ótrúlegu viðbragði að verja skot af stuttu færi í horn.

Dregið verður í 8-liða úrslit kvenna og karla í hádeginu á mánudaginn. Ásamt Selfossi verða í pottinum ÍBV, Fylkir, Breiðablik, Haukar, Stjarnan, Þór/KA og HK/Víkingur eða Þróttur R.

Fyrri greinÆgir náði í stig – KFR tapaði
Næsta grein„Augnablikið var með okkur í lokin“