Clive með þrennu í bikarsigri

Alexander Clive Vokes skoraði þrennu fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar eru komnir áfram í 2. umferð Mjólkurbikars karla í knattspyrnu eftir öruggan sigur á 5. deildarliði Álftaness.

Adrian Sanches og Alexander Clive Vokes kom Selfyssingum í 2-0 í seinni hluta fyrri hálfleiks og þannig stóðu leikar í leikhléi. Alexander Clive skoraði aftur þegar tíu mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og á eftir fylgdi glæsilegt aukaspyrnumark frá Þór Llorens Þórðarsyni. Clive kórónaði þrennuna á 79. mínútu áður en Álftanes minnkaði muninn í 5-1 með marki úr vítaspyrnu. Sesar Örn Harðarson og Aron Einarsson áttu hins vegar síðasta orðið undir lok leiks og úrslitin urðu 7-1. Selfoss mætir Reyni Hellissandi eða KFK í 2. umferðinni um næstu helgi.

Stokkseyringar, sem spila í 5. deildinni eru úr leik eftir stórt tap gegn Lengjudeildarliði Þróttar á útivelli í kvöld. Staðan var orðin 1-0 strax á fyrstu mínútu leiksins og í kjölfarið fylgdu sautján mörk til viðbótar frá Þrótturum. Lokatölur 18-0 en staðan í hálfleik var 9-0.

Fyrri greinMikilvæg stig í súginn
Næsta greinVið berum ábyrgðina, saman