Chris Woods til liðs við FSu

Körfuknattleiksfélag FSu hefur samið við bandaríska leikmanninn Christopher Woods um að spila með liði félagsins í Domino's-deild karla það sem eftir lifir leiktíðarinnar.

Þetta staðfesti Erik Olson, þjálfari FSu í samtali við Karfan.is í dag.

„Það á að vera búið að ganga frá öllu hvað varðar Útlendingastofnun og við vonumst bara til að fá hann sem fyrst til okkar. Hann skrifaði undir í gær.“

Woods lék á síðustu leiktíð fyrir Snæfell í Domino’s deild karla og þar áður með Val tvö tímabil svo hann þekkir vel til hér á landi. Hann leiddi Domino’s deildina í fyrra í fráköstum með 13,9 í leik og var í topp 10 í stigaskorun með 23,5.

Olson er mjög ánægður með þessa ráðningu. „Chris kemur með þriggja ára reynslu á Íslandi með sér til Selfoss. Þar af eru tvö ár í efstu deild þar sem hann hefur sannað að hann er áhrifamikill á leik síns liðs. Hann er mjög duglegur inni á vellinum, leggur sig allan fram og klárar færin sín við körfuna af miklu öryggi. Hann er mjög stöðugur í fráköstum og það mun hjálpa liðinu einna mest. Það að hann hafi verið hér í þrjú ár segir okkur að hann sé mikill fagmaður í sinni grein og við hlökkum mikið til að fá hann inn í hópinn,“ sagði Erik Olson í samtali við karfan.is.

Fyrri greinBílvelta á Skeiðavegi
Næsta greinVinnusmiðja á Hvolsvelli um helgina