Choki tryggði Ægi þrjú stig

Ivaylo Yanachkov varði vítaspyrnu í seinni hálfleiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir vann sigur á erfiðum útivelli þegar liði heimsótti Magna á Grenivík í 1. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu í dag.

Það var vorbragur á leiknum en hart barist og það var ekki fyrr en á 40. mínútu að Ægismönnum tókst að brjóta ísinn. Milos Djordjevic skoraði þá gott mark, sem reyndist vera sigurmark leiksins.

Sama baráttan var uppi á teningnum í seinni hálfleiknum en mörkin létu á sér standa. Magnamenn fengu vítaspyrnu en Ivaylo ‘Choki’ Yanachkov gerði sér lítið fyrir og varði spyrnuna og tryggði Ægismönnum stigin þrjú.

Fyrsti heimaleikur Ægis verður næstkomandi föstudagskvöld þegar Víkingur Ólafsvík kemur í heimsókn á Þorlákshafnarvöll.

Fyrri greinLátum verkin tala
Næsta greinFjölskyldur í forgang