Carlos ráðinn til Selfyssinga

Carlos Martin Santos. Ljósmynd/UMFS

Carlos Martin Santos hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta og verður því hægri hönd Þóris Ólafssonar í vetur. Carlos var áður þjálfari meistaraflokks Harðar á Ísafirði.

Ásamt því að vera aðstoðarþjálfari meistaraflokks mun Carlos taka að sér þjálfun 3. flokks karla og U-liðs karla.

Guðni Ingvarsson, sem var aðstoðarþjálfari á síðustu leiktíð, mun verða Þóri áfram innan handar en annars er þjálfarateymi Selfoss skipað þeim Þóri og Carlos, Jóni Birgi Guðmundssyni sjúkraþjálfara, Erni Þrastarsyni sem er teyminu til halds og trausts og þeir Jósef Geir Guðmundsson og Jóhann Árnason eru liðsstjórar.

Í tilkynningu frá handknattleiksdeildinni segir að þar á bæ sé mikil ánægja með ráðningu Carlosar, enda hefur hann
skilað góðu starfi í uppbyggingu handboltans á Ísafirði síðustu ár.

Selfyssingar hefja leik í Olísdeildinni næstkomandi laugardag kl. 16 þegar KA kemur í heimsókn í Set-höllina.

Fyrri greinKFR með bakið upp við vegg
Næsta greinÞekkingarsetrin gegna mikilvægu þjóðfélagshlutverki