Byrjunin slæm í báðum hálfleikum

Jenna Mastellone var stigahæst hjá Hamri-Þór. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar-Þór missti af mikilvægum stigum þegar liðið tapaði gegn Ármanni á útivelli í 1. deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Liðin mættust í Kennaraháskólanum og þar gekk Hamri-Þór ekkert að verjast í 1. leikhluta. Ármann skoraði 30 stig á fyrstu tíu mínútunum en Hamar-Þór minnkaði muninn lítillega fyrir hálfleik og staðan var 51-44 í leikhléi.

Aftur komu þær sunnlensku illa stemmdar út úr klefanum því Ármann tók öll völd á vellinum í 3. leikhluta og breytti stöðunni í 78-57 og í byrjun 4. leikhluta var staðan orðin 86-63. Hamar-Þór náði að minnka muninn í þrettán stig en nær komust þær ekki og lokatölur urðu 100-84.

Jenna Mastellone skoraði 23 stig fyrir Hamar og nýr leikmaður liðsins, hin hollenska Yvette Adriaans, var sömuleiðis öflug með 23 stig og 12 fráköst. Emma Hrönn Hákonardóttir og Jóhanna Ýr Ágústsdóttir skoruðu báðar 10 stig.

Hamar-Þór er í 4. sæti deildarinnar með 16 stig en Ármann er í 6. sæti með 12 stig.

Fyrri greinGrafa í sundur veginn til að verja brúarsmíðina
Næsta greinFSu mætir Flensborg í sjónvarpinu