Byrjunin ekki nógu góð

Hamarskonur töpuðu 89-77 þegar þær heimsóttu Njarðvík í Iceland Express deild kvenna í körfubolta í kvöld.

Það var byrjunin sem varð Hamri að falli en Njarðvíkingar voru mun ákveðnari í 1. leikhluta, komust í 8-0 og 24-10 en Hamarskonur minnkuðu muninn í 24-17 undir lok 1. leikhluta. Annar leikhluti var jafn og staðan var 51-38 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var hnífjafn en Hamar náði að minnka muninn í 66-57 í 3. leikhluta en staðan að honum loknum var 73-59. Munurinn hélst svipaður fram í 4. leikhluta en munurinn varð minnstur 11 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir af leiknum. Nær komust Hamarskonur ekki og gátu þær nagað sig í handarbökin yfir 1. leikhlutanum.

Katherine Graham átti fínan leik fyrir Hamar, skoraði 27 stig, tók 9 fráköst og sendi 7 stoðsendingar. Samantha Murphy skoraði 24 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir skoraði 10 stig og tók 11 fráköst, Fanney Lind Guðmundsdóttir skoraði 9 stig, Jenný Harðardóttir 4 og Íris Ásgeirsdóttir 3.

Fyrri greinBærinn semur við Hjálparsveitina
Næsta greinSögulegt stallarakjör í ML