„Byggjum þetta á sterkri liðsheild“

Keppni í Pepsideild kvenna í knattspyrnu hefst í kvöld en kl. 18 taka Selfyssingar á móti ÍBV á gervigrasvellinum á Selfossi. Selfyssingum er spáð 5. sæti í deildinni.

Kynningarfundur Pepsi-deildar kvenna fór fram í gær í höfuðstöðvum Ölgerðarinnar og að venju var þar birt spá forráðamanna félaganna. Selfyssingum er spáð 5. sæti en liðið varð í 6. sæti í fyrra. Stjörnunni er spá titlinum en Aftureldingu og ÍA er spáð falli.

Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfossliðsins, segir liðið mæta vel stemmt til leiks og hann á von á jöfnu og skemmtilegu knattspyrnusumri sem muni einkennast af mikilli baráttu.

„Spáin er kannski nokkuð raunhæf, ég var hissa á því að við vorum sett fyrir ofan ÍBV svona í ljósi sögunnar en auðvitað er það markmiðið okkar að bæta okkur og hækka okkur á töflunni frá árinu áður þannig að eðlilega stefnum við ofar en í fyrra,“ segir Gunnar sem hefur fengið sterka leikmenn til liðs við sig í vetur, meðal annars landsliðskonuna Dagnýju Brynjarsdóttur.

„Það er meiri breidd í hópnum heldur en í fyrra en það á eftir að koma í ljós hvort liðið er sterkara. Hópurinn er þéttur og góður þannig að við byggjum þetta á sterkri liðsheild. Við rennum samt blint í sjóinn í fyrsta leik, við vorum að taka fyrstu æfingu í gær með útlendingunum og Dagnýju og liðið er ekki alveg fullskipað núna í upphafi móts. Ég reikna með að við munum þurfa fyrstu leikina til þess að spila okkur saman, þannig að við tökum bara einn dag í einu til þess að byrja með,“ sagði Gunnar og bætti við að hann ætti von á hörkuleik á Selfossi í kvöld.

„Við höfum ekki verið að ná góðum úrslitum gegn ÍBV í gegnum tíðina en ég á von á því að liðið sem nennir að hlaupa meira og berjast meira muni ná sigri í kvöld,“ sagði Gunnar að lokum.

Fyrri greinGuðfinna Gunnars: Æ ❤ Árborg
Næsta greinFerðamálaverkefni fá 123 milljónir