„Búnir að fara vel yfir málin“

„Ef við ætlum að halda okkur í deildinni þá verðum við að vinna þennan leik í kvöld, það er bara þannig,“ segir Viktor Unnar Illugason, nýjasti leikmaður Selfoss í Pepsi-deildinni.

Selfyssingar mæta Haukum í þýðingarmiklum fallslag á Vodafone-vellinum að Hlíðarenda í kvöld. Fyrir leikinn eru Selfyssingar í 11. sæti með 8 stig en Haukar í botnsætinu með 7 stig. Grindavík er í 10. sæti með 9 stig og mætir Fram í kvöld.

„Þetta leggst bara mjög vel í mig. Við erum búnir að fara vel yfir málin frá leiknum gegn KR, bæði uppspilið og föst leikatriði. Það er jafnvel spurning hvort að Selfoss skori ekki úr föstu leikatriði í kvöld í stað þess að fá mark á sig,“ segir Viktor Unnar léttur í bragði og lofar marki. „Já, ég ætla að skora í kvöld, ég lofa því.“

Viktor þekkir vel til á Hlíðarenda sem er heimavöllur Hauka og Vals en hann kom til Selfoss úr herbúðum Vals. „Það verður gaman að koma þarna í kvöld þó að ég sé spenntari fyrir að mæta Val – við eigum það eftir,“ segir Viktor en hann fékk fá tækifæri með Valsliðinu í sumar.

„Mér fannst samkeppnin ekki vera sanngjörn og markmið mitt með því að koma á Selfoss var að reyna að fá meiri spiltíma. Við Sævar eigum örugglega eftir að ná vel saman í framlínunni en ef ég stend mig ekki þá er ég ekki í liðinu. Það er bara þannig enda á enginn öruggt sæti í byrjunarliðinu.“

Viktor Unnar er ánægður með móttökurnar og hann segir móralinn hjá liðinu góðan þrátt fyrir að staðan á stigatöflunni sé slæm. „Mér líst mjög vel á allt hérna á Selfossi og mér hefur verið tekið vel. Strákarnir eru fínir og það er mjög skemmtilegt að koma inn í þetta. Æfingarnar eru líka fínar hjá Gumma og stemmningin í hópnum er góð miðað við gengi liðsins.“

Fyrri greinHundaskráning fer hægt af stað
Næsta greinLokahelgi Sumartónleika