Búið að draga í bikarnum

Dregið hefur verið í fyrstu tvær umferðirnar í Borgunarbikar karla í knattspyrnu. Margir athyglisverðir leikir eru á dagskrá

KFR, sem leikur í 3. deildinni, mætir 4. deildarliði Skínanda á útivelli í 1. umferð og sigurliðið mætir 2. deildarliði Aftureldingar á útivelli í 2. umferð.

Árborg tekur á móti Kóngunum í 1. umferð en liðin eru saman í riðli í 4. deildinni í sumar. Sigurliðið mætir 4. deilarliði Harðar Ísafirði eða 4. deildarliði KFG á útivelli í 2. umferð.

Utandeildarlið Gnúpverja heimsækir 4. deildarlið Vængja Júpíters í 1. umferð og sigurliðið mætir 2. deildarliði Þróttar R. á útivelli í 2. umferð.

Hamar, sem leikur í 4. deildinni, tekur á móti 3. deildarliði Kára í 1. umferð en sigurliðið heimsækir ÍH eða Örninn í 2. umferð, en þau lið leika bæði í 4. deildinni.

2. deildarlið Ægis sækir 4. deildarlið Stál-úlfs heim í 1. umferð en sigurliðið úr þeim leik tekur á móti KV eða Skautafélagi Reykjavíkur í 2. umferð en bæði lið koma úr 4. deildinni.

Stokkseyri, sem leikur í 4. deildinni, heimsækir 4. deildarlið Skallagríms í Borgarnes í 1. umferð og sigurliðið mætir 2. deildarliði BÍ/Bolungarvíkur á útivelli í 2. umferð.

1. deildarlið Selfoss mætir til leiks í 2. umferðinni og mætir annað hvort 4. deildarliði Ísbjarnarins eða 3. deildarliði Reynis Sandgerði á útivelli.

Fyrsta umferð bikarkeppninnar er spiluð 1.-3. maí en 2. umferðin fer fram 18.-19. maí.

Fyrri greinKvenfélögin gefa til heilsugæslunnar
Næsta greinRafmagnstruflanir á Klaustri