Buggybílakeppnin komin til að vera

Síðastliðinn laugardag fór fram í fyrsta skipti á Íslandi fjórhjólabíla- eða buggybílakeppni við Hellu. Flugbjörgunarsveitin á Hellu stóð fyrir keppninni í samstarfi við Vélhjólaíþróttaklúbbinn (VÍK).

Keppt var í tveimur flokkum, 800 cc og 1000 cc, og þótti keppnin takast með eindæmum vel.

Tólf keppendur mættu til leiks og höfðu mikið gaman af og segja aðstandendur keppninnar að hún sé klárlega komin til að vera.

Jón Berg Reynisson á Polaris var eini keppandinn í 800 cc flokki og lauk hann keppni í fyrsta og síðasta sæti með 943 stig.

Í 1000 cc flokki sigraði Grettir Rúnarsson á Canam með 1.801 stig, annar varð Jón G. Margeirsson á Polaris með 1.410 stig og þriðji Birgir Guðjónsson á Polaris með 1.264 stig.

Tilþrifaverðlaunin hlaut Kristinn Bergsson á Arctic Cat en hann sló lítið af yfir daginn þrátt fyrir að vera fara fram af háum börðum eða fleyta yfir vatn.

Fyrri greinRúmar 360 milljónir í verkefni á Suðurlandi
Næsta greinHalló Helluvað á sunnudag