Bubbi hættur með Selfossliðið

Björn Kristinn Björnsson sem hefur þjálfað kvennalið Selfoss í knattspyrnu undanfarin tvö ár er hættur með liðið.

Bubbi kom liðinu upp í Pepsi-deildina á fyrsta ári og þrátt fyrir hrakspár fyrir tímabilið náði liðið að halda sæti sínu í deildinni og endaði í 8. sæti.

,,Ég er búinn með minn samning og skil sáttur við félagið og þeir sáttir við mig. Þeir ætla að gera skipulagsbreytingar hjá sér og hagræða sem er eitthvað sem ég ræð ekki við. Ég kveð mjög sáttur,” sagði Bubbi í samtali við Fótbolta.net í dag aðspurður um málið.

,,Selfyssingar geta verið stoltir. Það voru fjögur landsliðssæti á árinu. Ein í U17, tvær í U19 og önnur þeirra var kölluð í A-landsliðshópinn. Ég vona að Selfyssingum vegni vel.”