Bubbi endurráðinn og fjórir leikmenn framlengja

Björn Kristinn Björnsson hefur verið endurráðinn þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu auk þess sem liðið framlengdi samninga við fjóra lykilleikmenn frá því í sumar.

Björn Kristinn tók við Selfossliðinu fyrir síðasta keppnistímabil og náði frábærum árangri með liðið, sem varð Lengjubikarmeistari í B-deild og í 2. sæti í 1. deild Íslandsmótsins. Þar með tryggði Selfoss sér sæti í efstu deild kvenna í fyrsta skipti. Í lok sumars var Björn kosinn þjálfari ársins í 1. deildinni.

Í gær skrifuðu Selfyssingar undir samninga við fjóra leikmenn sem allir léku með liðinu í sumar. Það voru þær Thelma Sif Kristjánsdóttir, Anna María Friðgeirsdóttir, Katrín Ýr Friðgeirsdóttir og fyrirliðinn Þóra Margrét Ólafsdóttir, sem allar skrifuðu undir tveggja ára samning.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa Selfyssingar hug á því að bæta nokkrum erlendum leikmönnum í hópinn og standa samningaviðræður við þá yfir þessa dagana.