Selfoss heldur áfram á sigurbraut í 2. deild kvenna í knattspyrnu. Í dag lagði liðið Álftanes í Miðgarði í Garðabæ.
Álftnesingar voru fyrri til að skora, þær fengu vítaspyrnu á 26. mínútu og skoruðu úr henni. Forystan varði stutt því Guðmunda Brynja Óladóttir jafnaði með frábæru aukaspyrnumarki fimm mínútum síðar.
Staðan var 1-1 í hálfleik en um miðjan seinni hálfleikinn náði Brynja Líf Jónsdóttir að koma boltanum í netið og tryggja Selfyssingum 1-2 sigur.
Eftir fjórar umferðir sitja Selfyssingar ósigraðar í toppsæti deildarinnar með 12 stig en Álftanes er í 7. sæti með 3 stig.