Brynjólfur með bæði mörk Hamars

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði bæði mörk Hamars. Ljósmynd/Arnar Helgi Magnússon

Hamar og GG hafa stungið af í C-riðli 4. deildar karla í knattspyrnu en í kvöld vann Hamar góðan sigur á Herði Ísafirði á Grýluvelli í Hveragerði.

Brynjólfur Þór Eyþórsson kom Hamri yfir strax á 3. mínútu leiksins og hann var svo aftur á ferðinni á 24. mínútu, 2-0. Þannig stóðu leikar í hálfleik en gestirnir minnkuðu muninn á upphafsmínútu síðari hálfleiks. Fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-1.

Að loknum fimm umferðum er Hamar í 2. sæti riðilsins með 15 stig, eins og GG sem er í toppsætinu, en Hamar hefur lakara markahlutfall. Þar fyrir neðan koma fimm lið með 6 stig. 

Fyrri greinEinar Baldvin í Selfoss
Næsta greinValli Reynis er með allt upp á tíu