Brynjólfur bjargaði stigi fyrir Ægi

Brynjólfur Þór Eyþórsson skoraði mark Ægis. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir heimsótti botnlið Álftanes í 3. deild karla í knattspyrnu í dag. Lokatölur urðu 3-3 í fjörugum leik.

Ægir komst yfir strax á 7. mínútu leiksins þegar Álftnesingar skoruðu sjálfsmark. Heimamenn svöruðu hins vegar fyrir sig með tveimur mörkum á tveimur mínútum um miðjan fyrri hálfleikinn og staðan var 2-1 í leikhléi.

Miroslav Babic jafnaði metin úr vítaspyrnu á 56. mínútu en Álftnesingar náðu aftur að komast yfir þegar tuttugu mínútur voru eftir, 3-2. Brynjólfur Þór Eyþórsson kom hins vegar Ægismönnum til bjargar og skoraði jöfnunarmark fjórum mínútum fyrir leikslok.

 Ægir er í 7. sæti deildarinnar með 15 stig en Álftanes er áfram á botninum með 10 stig.