Bryndís sterkasta kona Íslands

Bryndís Ólafsdóttir á Selfossi endurheimti um helgina titilinn Sterkasta kona Íslands en keppnin fór fram í Hörpunni í gær. Sunnlendingar voru í þremur efstu sætunum.

Bryndís vann þessa sömu keppni á árunum 1995-1998 og hún hefur einnig unnið keppnina Sterkasta kona Norðurlanda og orðið í þriðja sæti í keppninni Sterkasta kona Evrópu.

Í öðru sæti varð sigurvegarinn frá því í fyrra, Þóra Þorsteinsdóttir á Stokkseyri og þriðja Jóhanna Eivinsdóttir í Þorlákshöfn sem var sterkasta kona Íslands 2009.

Þrettán keppendur tóku þátt í keppninni, þar af fimm Sunnlendingar, en auk þeirra þriggja fyrrnefndu kepptu Katrín Jóna Kristinsdóttir frá Þorlákshöfn og Rósa Birgisdóttir á Stokkseyri.

Meðal keppnisgreina voru drumbalyfta, sandpokaganga og réttstöðulyfta ásamt því sem þær þurftu að draga 170 kg fiskikar og halda 10 kg ketilbjöllu uppi fyrir framan sig eins lengi og þær gátu.

Keppnin var spennandi og skemmtileg og úrslitin réðust ekki fyrr en undir lokin.

Fyrri greinSunnlenskir knapar verðlaunaðir
Næsta greinÖruggt hjá Þór í Borgarnesi