Sunnlendingar náðu í tvo Íslandsmeistaratitla á 99. Meistaramóti Íslands í frjálsum íþróttum sem haldið var á Selfosvelli um helgina.
Hin 16 ára gamla Bryndís Embla Einarsdóttir, HSK/Selfoss, varð Íslandsmeistari í spjótkasti kvenna þegar hún kastaði 45,67 m. Árangur hennar er jafnframt nýtt HSK met í þremur flokkum, 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára, þar sem hún bætti eigin met.
Hjálmar Vilhelm Rúnarsson, HSK/Selfoss, sem er 17 ára gamall, stökk yfir 1,93 m í hástökki og varð Íslandsmeistari karla og hann vann einnig bronsverðlaun í kringlukasti með góðri bætingu.
Fleiri Sunnlendingar komust á verðlaunapall. Þorvaldur Gauti Hafsteinsson, HSK/Selfoss, tók silfrið í 800 m hlaupi og Kristinn Þór Kristinsson, HSK/Selfoss, vann silfurverðlaun í 1.500 m hlaupi. Þá vann Örn Davíðsson, HSK/Selfoss, silfur í spjótkasti og Anna Metta Óskarsdóttir, HSK/Selfoss, hlaut silfurverðlaun í þrístökki.
Egill Atlason Waagfjörð, Umf. Kötlu, vann tvenn bronsverðlaun á mótinu en hann varð í 3. sæti í bæði langstökki og þrístökki. Hugrún Birna Hjaltadóttir, HSK/Selfoss, vann bronsverðlaun í 400 m grindahlaupi og Ísold Assa Guðmundsdsóttir, HSK/Selfoss, tók bronsið í stangarstökki.
ÍR varð Íslandsmeistari félagsliða með talsverðum yfirburðum en HSK/Selfoss varð í 4. sæti í heildarstigakeppninni og Umf. Katla í 8. sæti. HSK/Selfoss varð sömuleiðis í 4. sæti bæði í stigakeppni karla og kvenna og Umf. Katla varð í 7.-8. sæti í stigakeppni karla.

