Bryndís Embla bætti eigið Íslandsmet

Spjótkastararnir voru í góðum gír á Selfossvelli í gærkvöldi. Ljósmynd/Einar Vilhjálmsson

Héraðsmetum í frjálsum íþróttum hélt áfram að rigna þetta sumarið þegar þriðja Sumarkastmót Selfoss var haldið á Selfossvelli í gærkvöldi.

Bryndís Embla Einarsdóttir kastaði 46,93 m í spjótkasti og bætti eigið Íslands- og héraðsmet í flokki 16-17 ára um 61 sm.

Þá þríbætti Kristján Kári Ólafsson eigið héraðsmet í sleggjukasti í flokki 16-17 ára. Kristján Kári átti best 39,31 m fyrir mótið en þegar upp var staðið hafði hann kastað 41,40 m.

Ágústa Tryggvadóttir bætti eigið öldungamet í flokki 40-44 ára í spjótkasti. Hún kastaði 28,73 m og bætti metið um 1,52 m.

Að lokum bætti Páll Jökull Pétursson eigið héraðsmet í kringlukasti í flokki 65-69 ára. Páll kastaði 26,86 m og bætti sig um 68 sm en fyrra metið var aðeins dagsgamalt.

Fyrri greinFramleiðir 95 þúsund máltíðir á ári
Næsta greinSveitahátíð með rótgrónu sniði