Bryndís Embla Einarsdóttir, Umf. Selfoss, setti nýtt Íslandsmet í spjótkasti í flokki 16-17 ára á 1. sumarmóti ÍR sem haldið var í Breiðholtinu í síðustu viku.
Bryndís Embla kastaði 500 gr spjóti 46,32 m og bætti Íslandsmet Arndísar Diljár Óskarsdóttur, FH, frá árinu 2021 um 39 cm. Bryndís Embla bætti einnig eigið HSK met í flokknum en fyrra met hennar var 44,75 m. Bryndís Embla er á yngra ári í flokknum og keppnistímabilið nýbyrjað, þannig að gera má ráð fyrir að hún muni kasta enn lengra á næstu vikum.
Þrír aðrir Selfyssingar kepptu á mótinu. Kristján Kári Ólafsson keppti í þremur kastgreinum og bætti sig í þeim öllum. Hann kastaði karlasleggjunni 35,80 m sem er nýtt HSK met í flokki 16-17 ára en fyrra metið var 32,29 í eigu Benjamíns Guðnasonar. Kristján Kári fékk silfurverðlaun fyrir kastið en faðir hans, Ólafur Guðmundsson, náði 3. sæti með 30,28 m löngu kasti. Kristján Kári keppti í kúluvarpi í flokki 16-17 ára þar sem hann kastaði 13,53 m og varð í öðru sæti, sama sæti og hann fékk fyrir að kasta kringlunni 33,69 m í flokki 16-17 ára.
Að lokum kastaði Daníel Breki Elvarsson karlaspjótinu 49,17 m og sigraði í karlaflokki.