Brons hjá Agli á Opna skoska

Breki Bernhardsson (t.v.) ásamt Agli Blöndal. Ljósmynd/UMFS

Egill Blöndal og Breki Bernharðsson frá júdódeild Selfoss kepptu á Opna skoska um síðustu helgi og stóðu sig býsna vel en Egill varð í þriðja sæti.

Egill, sem keppir í -90 kg flokki, vann fyrstu tvær viðureignir sínar og var þar með kominn í undanúrslit en þar tapaði hann og komst ekki í úrslitin. Hann keppti því síðar um daginn um bronsverðlaunin og vann þar sína þriðju viðureign.

Breki keppti í -81 kg flokki en þar voru keppendur tuttugu og einn. Hann vann fyrstu viðureignina en tapaði þeirri næstu. Hann fékk þó uppreisnarglímu í kjölfarið sem hann vann en fjórða glíman tapaðist og þar með var hann úr leik.

Selfoss á sex keppendur á RIG
Selfyssingar eiga hvorki fleiri né færri en sex keppendur á Reykjavík Judo Open, sem er alþjóðlegt mót sem haldið verður í Laugardalshöllinni næstkomandi laugardag. Júdósamband Íslands heldur mótið nú í sjötta sinn í samvinnu við Reykjavik International Games og er þetta opið alþjóðlegt mót fyrir karla og konur. Auk þess sem Egill og Breki keppa verða Selfyssingarnir Þór Davíðsson, Grímur Ívarsson, Úlfur Þór Böðvarsson og Hrafn Arnarsson meðal keppenda Íslands.

Fyrri greinDagný María Norðurlandameistari
Næsta greinLýst eftir Ríkharði Péturssyni