Bríet og Bjarki með silfur á Smáþjóðamótinu

Keppendur Íslands á Smáþjóðamótinu í Ólympískum lyftingum. Ljósmynd/Kraftlyftingasamband Íslands

Íslenska landsliðið náði frábærum árangri á Smáþjóðamótinu í Ólympískum lyftingum sem fram fór í Lúxemborg um síðustu helgi. Tveir Sunnlendingar voru í junior liðinu sem varð í 2. sæti, þau Bríet Anna Heiðarsdóttir og Bjarki Breiðfjörð Björnsson.

Mótið var stigakeppni þar sem samanlögð sinclairstig liðsins gilda til verðlauna. Ísland vann heildarstigakeppni senior og íslensku konurnar sigruðu stigakeppni kvenna senior. Senior karlarnir urðu í öðru sæti og sem fyrr segir varð junior liðið í öðru sæti.

Bríet Anna lyfti 60 kg og 63 kg í snörun og reyndi síðan við 66 kg sem ekki vildi upp. Í jafnhendingu lyfti hún 70 kg, reyndi við 72 kg sem fóru ekki upp en endaði svo á að taka 73 kg. Samanlagður árangur hennar var því 136 kg og hlaut hún 186,61 sinclairstig.

Bjarki hóf leikinn á 115 kg snörun sem hann missti tvisvar og því var gríðarlega mikilvægt að hann næði þriðju tilrauninni sinni til þess að fá gildan árangur inní sinclair keppnina. Hann gerði það með glæsibrag og kom svo sterkur inn í jafnhendinguna þr sem hann lyfti 130 kg í fyrstu lyftu, 135 kg í annarri lyftu og reyndi því næst við 141kg sem ekki vildi upp í dag. Samanlagt lyfti Bjarki 250 kg sem gáfu honum 316,12 sinclair stig.

Fyrri grein75 ára gömul kvikmynd úr Rangárvallasýslu
Næsta greinUndrast yfirlýsingar um virkjanaáform án samráðs við Hvergerðinga