„Breyttist mjög mikið að fá Woods“

Birkir Víðsson var að spila sinn seinasta leik á tímabilinu með FSu þegar liðið mætti KR í Iðu í gærkvöldi í Domino's-deild karla í körfubolta.

Birkir er að fara í heimsreisu í næstu viku og kemur ekki heim fyrr en í mars. Hann kom sterkur inn í 2. leikhluta í gærkvöldi og gerði fjögur stig á stuttum kafla. Eftir harða rimmu náðu gestirnir svo að knýja fram sigur undir lok leiks.

Birkir á von á miklu frá FSu liðinu á meðan hann verður í heimsreisunni, en sunnlenska.is hitti á hann eftir leik.

„Það var mjög leiðinlegt að tapa þessum leik, við vorum tuttugu stigum yfir og leiðinlegt að missa þetta niður og við sjáum bara núna að við eigum að geta spilað við hvaða lið sem er. Ég fer út núna daginn sem þeir spila við Tindastól sem er okkar næsti leikur þannig að þetta var minn síðasti leikur í bili,“ sagði Birkir.

„Við erum búnir að bæta okkur helling frá byrjun tímabilsins og það breyttist mjög mikið þegar við fengum Chris Woods, þá fórum við að spila miklu meira sem lið og spilamennskan gengur betur núna. Hann gerir alveg fullt fyrir okkur, ekki bara sem leikmaður. Hann er stórkostlegur leikmaður en hann er líka mjög mikill liðsmaður og talar við okkur og hjálpar okkur. Ég held að við eigum eftir að gefa í núna, við unnum Keflavík, erum nálægt því að vinna KR og allir okkar leikir fyrir utan Hauka hafa verið jafnir. Liðið er að fara gefa allt í þetta og við eigum eftir að vinna fleiri leiki á meðan ég er í heimsreisunni.“

Fyrri greinHugmyndir að umhverfisvænu smáhúsahverfi á Hellu
Næsta greinLangþráð brunavarnaáætlun undirrituð