Haustfundur frjálsíþróttaráðs HSK var haldinn í Selinu á Selfossi í síðustu viku. Á fundinum var fjárhagsstaða ráðsins kynnt og undir þeim lið var m.a. fjallað um uppgjör og skiptingu fjármagns sem náðist að afla með því að framkvæma meistaramót 15-22 ára utanhúss í sumar.
Dagsetningar allra HSK móta í frjálsum á næsta ári voru ákveðnar og taka þær mið af mótaskrá FRÍ. Áður en dagsetningar verða gefnar út þarf að fá staðfestingu á að íþróttamannvirkin séu laus þessa daga.
Á haustfundum ráðsins gefst fundarmönnum tækifæri á að koma með hugmyndir að breytingum á framkvæmd HSK mótana. Mesta breytingin sem rædd var er að prófa að blanda saman Héraðsmóti og Unglingamóti næsta sumar og gera með því eitt stórt og gott mót sem vonandi laðar að sér keppendur utan héraðs líka. Vinnuhópur mun funda um málið og skila af sér tillögu um þetta fyrir aðalfund ráðsins 2025.
Á fundinum var einnig rætt um skemmtikvöld ráðsins fyrir 11-14 ára en það mun fara fram á Hvolsvelli 24. nóvember nk.