Brekkan varð brött í upphafi leiks

Perla Ruth Albertsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss fékk skell þegar liðið mætti Haukum í 1. umferð Olísdeildar kvenna í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Spennustigið var ekki rétt hjá Selfyssingum í uppphafi leiks, þær voru ólíkar sjálfum sér og Haukar hreinlega völtuðu yfir þær. Eftir átján mínútna leik var brekkan orðin brött og staðan 10-1 en Haukar leiddu í hálfleik, 17-7. Byrjunin í seinni hálfleik var síst betri hjá Selfyssingum og Haukar náðu mest sextán marka forskoti, 23-7. Úrslitin voru löngu ráðin en hlutirnir fóru að ganga betur hjá Selfossliðinu á lokakaflanum og lokatölur leiksins urðu 32-20.

Perla Ruth Albertsdóttir var markahæst Selfyssinga með 8/3 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 4, Arna Kristín Einarsdóttir og Katla María Magnúsdóttir 3 og Hulda Hrönn Bragadóttir og Harpa Valey Gylfadóttir skoruðu eitt mark hvor. Cornelia Hermansson varði 13 skot í marki Selfoss og Ágústa Tanja Jóhannsdóttir 2/1.

Fyrsti heimaleikur Selfoss er föstudaginn 13. september kl. 19:30 þegar Grótta kemur í heimsókn.

Fyrri greinHinsegin fólk er allstaðar
Næsta greinElvar Orri afgreiddi Skallagrím