Brekkan of brött í lokin

Laugdælir tóku á móti Breiðablik í 1. umferð 1. deildar karla í körfubolta í kvöld þar sem gestirnir sigruðu 82-92.

Laugdælir byrjuðu betur og leiddu eftir 1. leikhluta, 21-19. Blikar komu til baka í 2. leikhluta og leiddu í leikhléi, 36-38. Í þriðja leikhluta voru gestirnir hins vegar mun atkvæðameiri og náðu þá 25 stiga forystu, 51-76. Laugdælir svöruðu fyrir sig í síðasta fjórðungnum þar sem Bjarni Bjarnason fór mikinn en brekkan var orðin of brött og Laugvetningar náðu ekki í skottið á Blikunum.

Bjarni var stigahæstur Laugdæla með 33 stig, Jón H. Baldvinsson skoraði 24 og Sigurður Orri Hafþórsson 13.