Brekkan brött gegn toppliðinu

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hún var heldur brött brekkan sem ungmennalið Selfoss lenti í í kvöld þegar topplið Grill-66 deildar karla, HK, kom í heimsókn í SET-höllina.

Selfyssingarnir ungu héldu í við HK fyrstu fimm mínúturnar en síðan ekki söguna meir og munurinn varð mestur sjö mörk í fyrri hálfleik. Staðan var 10-17 í leikhléi. Selfoss-U náði aldrei að svara fyrir sig í seinni hálfleiknum og forskot HK jókst jafnt og þétt allan tímann. Að lokum skildu 19 mörk liðin að, 19-38.

Hans Jörgen Ólafsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Sigurður Snær Sigurjónsson skoraði 4, Sæþór Atlason 3, Anton Breki Hjaltason 2 og þeir Gunnar Flosi Grétarsson, Gunnar Kári Bragason og Jónas Karl Gunnlaugsson skoruðu allir 1 mark. Jón Þórarinn Þorsteinsson varði 10 skot í marki Selfoss og Karl Jóhann Einarsson 2.

Ungmennalið Selfoss er í 8. sæti deildarinnar með 5 stig en HK er áfram á toppnum, nú með 13 stig.

Fyrri greinVandræðalega spennt ef það er baðkar á hótelherberginu
Næsta greinSextán ára stigahæstur hjá Selfyssingum – Hamar og Hrunamenn sigruðu