Brekkan brött gegn meisturunum

Dean Martin, þjálfari Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar lentu í nokkuð brattri brekku í kvöld þegar þeir tóku á móti Íslands- og bikarmeisturum Víkings í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í knattspyrnu.

„Ég er stoltur af liðinu. Við unnum vel, í stöðunni 2-0 eru menn að hlaupa og gefa allt sitt í leikinn en vítið og rauða spjaldið fer með leikinn. Það er nógu erfitt að spila á móti Víkingum með ellefu menn en þegar við vorum orðnir tíu þá misstum við stjórnina á okkar leik,“ sagði Dean Martin, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Það var frábær mæting á völlinn og mikil stemning í rigningunni á Selfossi en það varð fljótlega ljós í hvað stefndi. Víkingar komust í 0-1 á tíundu mínútu og bættu öðru marki við á 35. mínútu. Selfyssingar áttu hins vegar spretti í fyrri hálfleiknum þó að færin hafi verið fá en Gonzalo Zamorano var líflegur og átti tvær góðar tilraunir, meðal annars sláarskot.

Á níundu mínútu seinni hálfleiks varð vendipunktur í leiknum þegar Aron Darri Auðunsson, nýkominn inná sem varamaður, var rekinn af velli og Víkingar fengu vítaspyrnu. Selfyssingum fannst þetta harður dómur en Víkingar skoruðu úr spyrnunni og þá var leikurinn nánast búinn fyrir þá vínrauðu.

Meistararnir höfðu fulla stjórn á leiknum í kjölfarið og bættu við tveimur mörkum um miðjan seinni hálfleikinn og staðan því orðin 0-5. Sjötta markið kom svo á lokamínútunum en Víkingum tókst að skora tvær þrennur í leiknum; markaskorarar liðsins voru Helgi Guðjónsson og Logi Tómasson. Lokatölur 0-6.

Fyrri greinKFR tapaði heima
Næsta greinSæta nálgunarbanni vegna heimilisofbeldis