Braz hjá Ægi fyrir norðan

Ivo Braz. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ægir tapaði 3-1 þegar liðið heimsótti Þór Akureyri í Lengjudeild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og það var ekki fyrr en á 42. mínútu að Þórsurum tókst að brjóta ísinn eftir snarpa sókn. Ægismenn voru nálægt því að jafna fyrir hálfleik en Hrvoje Tokic fékk dauðafæri á lokamínútu fyrri hálfleiks en skaut framhjá.

Það var því heldur súrt fyrir Ægismenn þegar Þórsarar skoruðu á upphafsmínútu fyrri hálfleiks með góðu skallamarki eftir fyrirgjöf frá hægri. Ægir gafst ekki upp og þeir fengu ágæt færi áður en Ivo Braz minnkaði muninn eftir frábæra sókn á 86. mínútu. Vopnin voru þó slegin úr höndunum á Ægi nánast strax í næstu sókn Þórs þegar heimamenn skoruðu þriðja markið og tryggðu sér 3-1 sigur.

Ægir er áfram á botni deildarinnar með 1 stig en Þór lyfti sér upp í 5. sætið með 9 stig, jafnmörg stig og Selfoss í 4. sætinu.

Fyrri greinAlvöru girðingarvinna heldur manni í formi
Næsta greinÞorsteinn tryggði sigurinn í uppbótartímanum