Brautarmetin féllu í Mýrdalshlaupinu

Þorsteinn Roy með mikla forystu. Hleypur hér á Reynisfjalli, Hatta í baksýn. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Mýrdalshlaupið fór fram í 12. skipti í Vík í Mýrdal í dag. Keppt var í 10 km og 21 km hlaupi en auk þess fór fram 3 km skemmtiskokk sem var vel sótt. Veðrið lék við þátttakendur í Vík í dag og var hlaupið ræst í sól og blíðu í Víkurfjöru í morgun.

Hátt í 500 manns voru mættir á ráslínuna, tæplega 200 keppendur í 10 km hlaupinu og tæplega 300 í 21 km hlaupinu. Brautarmet voru slegin í báðum greinum, bæði í karla og kvennaflokki.

Andrea Kolbeinsdóttir og Egill Örn Gunnarsson á Reynisfjalli. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson

Einvígi Andreu og Yngvild
Mikil spenna ríkti fyrir kvennakeppninni í 21 km hlaupinu en Yngvild Kaspersen frá Noregi, ein fremsta utanvegahlaupakona heims mætti til keppni, og búist var við spennandi keppni á milli hennar og Andreu Kolbeinsdóttur, fremstu utanvegahlaupakonu Íslands. Andrea setti þó fljótlega nokkuð forskot á Yngvild, sem hún bætti síðan í þegar leið á hlaupið og kom fyrst kvenna í mark á tímanum 1:50,32 klst sem er nýtt brautarmet. Yngvild kom svo önnur í mark á tímanum 1:55,52 klst, sem er líka undir gamla brautarmetinu, og þriðja í keppninni var Elísa Kristinsdóttir á tímanum 1:58,35 klst.

„Mér leið ekkert smá vel í brautinni, og sérstaklega gaman að fá keppinaut erlendis frá. Ég var vel stemmd, en vissi ekki alveg hvaða séns ég átti í að vinna Yngvild, en hún er náttúrulega 3. konan á heimslista ITRA. Þetta spilaðist ekki eins og ég átti von á og fljótlega var ég komin með forskot á Yngvild sem ég síðan jók bara í, en ég mætti auðvitað hungruð í brautina eftir lakan árangur í Kaupmannahafnarmaraþoninu og er bara svakalega ánægð með daginn! Ég gaf allt í þetta í dag svo ég var ekki hissa á því að hafa bætt eigið brautarmet,“ sagði Andrea að hlaupi loknu, þar sem hún bætti gamla brautarmetið um sléttar 6 mínútur.

Yngvild og Andrea í upphafi hlaups. Ljósmynd/Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson

Þorsteinn Roy var í stuði
Í karlakeppninni ríkti einnig mikil spenna þegar Þorsteinn Roy Jóhannsson, Halldór Hermann Jónsson og Grétar Örn Guðmundsson urðu hlutskarpastir. Þorsteinn bætti brautarmetið sitt frá því fyrir tveimur árum um réttar 4 mínútur, en hann kom í mark á tímanum 1:37,56 klst. Næstur á eftir honum kom Halldór Hermann Jónsson á tímanum 1:43,48 klst, og þriðji varð Grétar Örn Guðmundsson á tímanum 1:46,08 klst.

„Ég var í stuði í dag og leið vel á hárri ákefð. Brautin er svo skemmtileg og breytileg að maður fær ekki leið á neinum kafla og er skælbrosandi allan tíman. Mér leið vel og það gekk allt upp í dag. Ég bjóst alveg við að geta bætt brautarmetið um 3 mínútur, ég vissi að ég hafði það í mér, en ég vissi náttúrulega ekki hvaða keppni ég myndi fá í hlaupinu, eða hversu nálægt næstu menn yrðu. Ég var ekkert að fylgjast með tímanum, mér leið bara vel og leyfði mér að njóta í augnablikinu,“ sagði Þorsteinn Roy, ánægður með dagsverkið.

Íris Dóra Snorradóttir kemur í mark. Ljósmynd/Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson

Íris Dóra stefndi á brautarmetið
Keppnin í 10 km hlaupinu var að sama skapi jöfn og spennandi. Í karlaflokki var Gestur Daníelsson hlutskarpastur, hljóp á tímanum 41:06 mín og bætti brautarmet Sigurjóns Ernis frá því í fyrra um 17 sekúndur. Í öðru sæti varð Sindri Georgsson á tímanum 43:29 mín, og í þriðja sæti varð Luis Rubio á tímanum 45:52 mín.

Í kvennaflokki var það Íris Dóra Snorradóttir sem vann og sló brautarmet, á tímanum 47:26 mín, í öðru sæti varð Birna María Másdóttir á tímanum 47:51 mín og í þriðja sæti varð Þorgerður Gyða Ásmundsdóttir á tímanum 56:19 mín. Íris Dóra átti brautarmetið 2023, en Sonja Sif bætti það um 9 sekúndur árið 2024, en í dag náði Íris Dóra metinu aftur.

„Mér leið vel í hlaupinu, ég keppi aðallega á braut svo mér leið best á flötu köflunum og hækkunin var svolítið erfiðari, en ég stóð mig bara virkilega vel. Ég bætti mig um 6 mínútur síðan ég var hérna fyrir 2 árum, ég vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast, en markmiðið var alltaf að ná brautarmetinu. Þetta var virkilega góð reynsla,” sagði Íris Dóra sem kom gríðarlega sterk til leiks í dag.

Þriggja kílómetra skemmtiskokkið var vel sótt og þar tóku hlauparar á öllum aldri þátt.

Þátttakendur í 3 km skemmtiskokki koma í mark. Ljósmynd/Þorgeir Eyfjörð Sigurðsson

Vinsælt og erfitt
Hlaupið hefur skipað sér sess sem eitt vinsælasta og erfiðasta utanvegahlaup landsins og í ár var sýnt beint frá hlaupinu á YouTube síðu hlaupsins. Þeir Snorri Björnsson og Guðlaugur Ari Jónsson lýstu keppninni af sinni alkunnu snilld en fjölmargir myndatökumenn voru í brautinni og fylgdu fyrstu keppendum í 21 km hlaupinu eftir.

Framkvæmd hlaupsins gekk vel og öll umgjörð hlaupsins var til fyrirmyndar. Hlaupið er skipulagt og haldið af sjálfboðaliðum í góðgerðarskyni og eru ýmis félagasamtök sem njóta góðs af framkvæmd hlaupsins, meðal annars Ungmennafélagið Katla, Jaðarsportklúbburinn Víkursport, Björgunarsveitin Víkverji og Kvenfélagið Ljósbrá. Verslunin Eirberg er helsti samstarfs- og styrktaraðilli Mýrdalshlaupsins og fengu allir verðlaunahafar hlaupsins vinninga frá Eirberg.

Verðlaunapallur í 10 km hlaupi karla. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson
Verðlaunapallur í 10 km hlaupi kvenna. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson
Verðlaunapallur í 21 km hlaupi kvenna. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson
Verðlaunapallur í 21 km hlaupi karla. Ljósmynd/Páll Jökull Pétursson
Fyrri greinMikilvægur sigur á heimavelli
Næsta greinAf leikskólamálum í Árborg – aukin fræðsla til foreldra og starfsánægja eykst