Brann hefur áhuga á Babacar

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hefur norska úrvalsdeildarliðið Brann áhuga á að fá Selfyssinginn Babacar Sarr í sínar raðir.

Babacar, sem var annar af leikmönnum ársins hjá meistaraflokki Selfoss, fór á reynslu til Brann í lok september eftir að hafa reynt fyrir sér hjá Lilleström. Til stóð að Babacar yrði hjá Brann í eina viku en forráðamönnum liðsins leist vel á hann og framlengdu dvöl hans þar um aðra viku.

Samkvæmt heimildum sunnlenska.is hafa einhverjar þreifingar átt sér stað milli Brann og Selfoss en Rune Skarsfjord, þjálfari Brann, vill bæta nýjum leikmönnum í sinn hóp fyrir næsta tímabil.

Hann lét hins vegar hafa það eftir sér í norskum fjölmiðlum að Brann myndi fá nokkuð marga leikmenn til skoðunar og að félagið hafi ekki úr miklu fjármagni að moða í leikmannamálum.

Babacar er nú kominn á heimaslóðir í Senegal og að öllu óbreyttu kemur hann aftur á Selfoss í janúar en hann er samningsbundinn Selfyssingum út árið 2012.