Bragðlaus frammistaða í Bítlabænum

Sif Atladóttir var í leikmannahópi Selfoss í dag. sunnlenskais/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss heimsótti Keflavík í Bestu deildinni í knattspyrnu í kvöld í algjörlega bragðlausum leik. Keflavík sigraði 1-0 og kom sigurmarkið úr langskoti með vindi á 34. mínútu.

Selfyssingar virtust ekki til í slaginn í kvöld og fundu engar leiðir upp að marki Keflavíkur. Þær náðu ekki skoti á rammann allan leikinn en besta færið var skalli Barbáru Sólar Gísladóttur eftir hornspyrnu á 67. mínútu en hann fór framhjá markinu. Leikur liðsins var hægur og Selfyssingar réðu illa við að sækja með vindi í seinni hálfleik.

Keflavík ógnaði heldur ekki mikið en þau fáu færi sem liðið skapaði sér í seinni hálfleik voru mun hættulegri en sóknartilraunir Selfyssinga. Keflavík fékk dauðafæri undir lok leiks en Idun-Kristine Jörgensen, markvörður Selfoss, varði boltann í þverslána og kom í veg fyrir enn verri úrslit fyrir Selfoss.

Eftir fimm umferðir er Selfoss í 8. sæti deildarinnar með 4 stig en sigurinn fleytti Keflavík upp í 5. sætið með 7 stig.

Fyrri greinBuðu 8. bekk í bíó eftir harkalegan niðurskurð
Næsta grein„Fólki er heitt í hamsi“