Bragðdaufur sigur í Hveragerði

Hamar vann tiltölulega auðveldan sigur á KFÍ í Iceland Express-deild karla í körfubolta í kvöld, 83-69.

Hamar byrjaði mun betur og átti greiða leið í gegnum vörn KFÍ í 1. leikhluta. Hamar leiddi með þrettán stigum að honum loknum, 30-17, en eftir það fór mesti glansinn af leik liðsins.

Jafnræði var með liðunum það sem eftir lifði leiks en staðan í hálfleik var 52-39. Lítið var skorað í seinni hálfleik og munurinn hélst sá sami þannig að leikurinn fjaraði út sem lítil skemmtun.

Andre Dabney var stigahæstur hjá Hamri með 21 stig. Nerijus Taraskus skoraði 12 stig eins og Darri Hilmarsson 12 sem einnig tók 9 fráköst og sendi 5 stoðsendingar. Ragnar Á. Nathanaelsson var besti maður vallarins með 10 stig, 10 fráköst og 4 varin skot. Ellert Arnarson skoraði 9 stig og það gerði Svavar Páll Pálsson líka og hann tók 9 fráköst að auki.

KFÍ tefldi fram átta leikmönnum í kvöld og í þeim hópi voru tveir Íslendingar. Þeir eru báðir Sunnlendingum að góðu kunnir, Selfyssingurinn Ari Gylfason skoraði 2 stig fyrir KFÍ og Daði Grétarsson, fyrrum leikmaður FSu, skoraði 7 stig.

Hamar er í 4. sæti deildarinnar eftir sjö leiki með 8 stig eins og Keflavík og Stjarnan sem eru í næstu sætum fyrir neðan.

Fyrri greinKveikt á jólaljósunum í Árborg
Næsta greinEyþór Jóvins: Hættur við að auglýsa framboðið