Bragðdauft jafntefli á Hvolsvelli

KFR og Hamar bíða ennþá eftir fyrsta sigri sínum í 2. deild karla í knattspyrnu í sumar. Liðin skildu jöfn, 1-1, á Hvolsvelli í kvöld en KFR náði þar í sitt fyrsta stig í sumar.

Hamarsmenn komust yfir strax á 4. mínútu leiksins þegar þeir fengu aukaspyrnu úti á kanti sem Aron Már Smárason stangaði í netið. Eftir markið féllu Hamarsmenn til baka og Rangæingar réðu ferðinni en bæði lið fengu þó hálffæri á fyrstu fimmtán mínútum leiksins.

Á 31. mínútu jöfnuðu Rangæingar metin og var markið slysalegt sjálfsmark hjá Hamarsmanninum Arnþóri Kristinssyni. Hann renndi knettinum aftur á Björn Aðalsteinsson markmann en hann rétt missti af boltanum sem rúllaði í netið.

Síðustu tíu mínútur fyrri hálfleiks reyndu bæði lið að auka pressuna og hitnaði þá nokkuð í kolunum á milli manna. Þannig var Rangæingurinn Reynir Óskarsson heppinn að dómari leiksins sá ekki þegar hann gaf Ragnari Sigurjónssyni tvívegis olnbogaskot í síðuna á meðan þeir biðu eftir innkasti.

Rangæingar áttu tvö færi á lokamínútum fyrri hálfleiks. Andrzej Jakimczuk átti ágætt skot að marki sem Björn varði vel í horn og uppúr hornspyrnunni fékk Reynir Björgvinsson frían skalla að marki Hamars en boltinn fór yfir. 1-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur spilaðist líkt og sá fyrri, barningur á miðjunni og fátt um færi. Á 59. mínútu var Þórhallur Lárusson þó nálægt því að koma KFR yfir þegar hann átti ágætt skot að marki sem söng í þverslánni. Tíu mínútum síðar tók Mariusz Baranowski aukaspyrnu rétt fyrir utan vítateig Hamars. Boltinn fór í varnarvegginn og sleikti síðan þverslána.

Hamar var sterkari aðilinn síðustu tuttugu mínútur leiksins en gekk afleitlega að skapa sér færi. Arnþór átti þó ágætan skalla að marki á 84. mínútu eftir aukaspyrnu en boltinn fór í hliðarnetið. Síðasta færið var þó Rangæinga en Jakimczuk skaut í hliðarnetið á marki Hamars eftir skyndisókn.

Eftir leikinn eru Hamarsmenn komnir úr fallsæti en liðið hefur þrjú stig eins og Fjarðabyggð en mun betra markahlutfall. Rangæingar eru áfram í neðsta sæti, nú með eitt stig.