Bragðdauft hjá Selfyssingum

Selfoss tapaði 0-1 í bragðdaufum leik þegar Haukar komu í heimsókn á JÁVERK-völlinn á Selfossi í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Fyrri hálfleikur var tíðindalítill, Selfyssingar voru sprækari framanaf og fengu tvö hálffæri. Þegar leið á fyrri hálfleikinn hresstust gestirnir en sköpuðu sér engin færi. Eina mark leiksins kom því eins og þruma úr heiðskíru lofti á 42. mínútu.

Eins og oft áður í sumar hafa Selfyssingar lent í vandræðum þegar þeir fá á sig föst leikatriði. Haukar fengu hornspyrnu og eftir mikinn hamagang í teignum barst boltinn á Gunnlaug Guðmundsson sem skoraði af öryggi.

Seinni hálfleikur var bragðdaufur lengst af en Selfyssingar áttu hættulegri sóknir. Það var ekki fyrr en í blálokin að Selfoss setti mikla pressu á Haukana en tókst ekki að þrýsta boltanum innfyrir marklínuna þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir.

Lokatölur 0-1 og Selfyssingar eru áfram í 8. sætinu með 8 stig að loknum 8 umferðum. Fram og HK eru í næstu sætum fyrir neðan með leik til góða og geta náð Selfyssingum að stigum.

Fyrri greinTugþúsundir blóma í Hveragerði
Næsta greinHamar skellti toppliðinu