Bragðdauft gegn botnliðinu

Selfoss tapaði 16-20 þegar botnlið Hauka kom í heimsókn í Vallaskóla í Olísdeild-kvenna í handbolta í dag.

Leikur Selfyssinga var ákaflega bragðdaufur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Haukar sigu framúr í síðari hluta fyrri hálfleiks og breyttu þá stöðunni úr 4-5 í 5-10 en staðan var 6-10 í leikhléi.

Haukar virtust ætla að landa fyrirhafnarlausum sigri því að í upphafi síðari hálfleiks náðu gestirnir sjö marka forskoti, 7-14. Þá skoraði Selfoss fimm mörk í röð og minnkaði muninn í 12-14 og rúmar tíu mínútur eftir á klukkunni.

Nær komust Selfyssingar ekki því þær ýmist fóru illa með góð færi eða völdu að reyna vond færi. Haukarnir sigldu því framúr aftur og unnu öruggan sigur.

Kara Rún Árnadóttir var markahæst Selfyssinga með 5/2 mörk, Þuríður Guðjónsdóttir og Hildur Øder Einarsdóttir skoruðu 3 mörk, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3/1 og Tinna Soffía Traustadóttir 2.

Áslaug Ýr Bragadóttir varði 9 skot í marki Selfoss og var með 31% markvörslu.

Fyrri greinBúið að rífa Sandvíkurhluta Snælands
Næsta greinFluttur á slysadeild eftir bílveltu