Bræðurnir gerðu það gott á Evrópumótinu

Bræðurnir Heiðar Ingi Heiðarsson og Björgvin Karl Guðmundsson frá Stokkseyri gerðu það gott á Evrópumótinu í crossfit sem fram fór í Ballerup í Danmörku á dögunum.

Björgvin Karl keppti í einstaklingskeppni en til þess að fá keppnisrétt á Evrópumótinu þurfti hann fyrst að taka þátt í forkeppni sem samanstóð af fimm æfingum á fimm vikum þar sem hann atti kappi við hvorki fleiri né færri en 6.500 keppendur. Hann endaði í 8. sæti og tryggði sér þannig farseðil á Evrópumótið en efstu 48 í Evrópu fengu boð á mótið.

Björgvin Karl vakti mikla athygli á Evrópumótinu þar sem hann endaði í 9. sæti. Hann er aðeins tuttugu ára gamall og hefur ekki stundað crossfit nema í rétt rúmt ár.

Heiðar Ingi keppti með liði Reebok Crossfit Reykjavík sem varð í 3. sæti á mótinu og tryggði sér þar með farmiða á heimsleikana í crossfit sem fram fara í Los Angeles í júlí nk.

Strákarnir segja fátt framundan annað en strangar æfingar, æfingar fyrir heimsleikana hjá Heiðari og æfingar fyrir næsta keppnistímabil hjá Björgvini. Þeir brður starfa báðir sem þjálfarar hjá Crossfit Hengli í Hveragerði svo segja má að lífið snúist um fátt annað hjá þessum grjóthörðu bræðrum.


Heiðar Ingi, þriðji frá hægri, með liðsfélögum sínum í Reebok Crossfit Reykjavik.

Fyrri greinHeklukot orðinn Heilsuleikskóli
Næsta greinOpnunartími bókasafnsins styttist