Bountakis ráðinn þjálfari hjá júdódeild Selfoss

George Bountakis (t.v.) ásamt Yasuhiro Yamashita, forseta Japanska júdósambandsins, Ólympíumeistara 1984 og margfalds heimsmeistara.

Júdódeild Selfoss hefur ráðið nýjan þjálfara til starfa, George Bountakis sem kemur frá Spörtu í Grikklandi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá júdódeild Selfoss, þar sem Bountakis er boðinn velkominn til starfa.

Bountakis er 6. Dan í júdó og hefur áratuga reynslu af þjálfun íþróttamanna og sérstaklega júdó. Hann hefur menntað sig í Grikklandi og Japan en BSc gráðu í íþróttaþjálfun lauk hann frá Cambridge háskóla í Bretlandi árið 2016 og doktorsnámi frá Hertfordshire háskóla fyrr á þessu ári, með júdó sem sérgrein.

Hann var einn af landsliðsþjálfurum Grikklands um árabil auk þess sem hann þjálfaði landsliðkeppendur frá Grikklandi, Wales og Stóra-Bretlandi fyrir Ólympíuleikana. Ein af nemendum hans var Ioulietta Boukouvala sem náði að vinna til fjölda gullverðlauna á sterkustu júdómótum heims.

Þá hefur Bountakis búið til sérhæft kennsluefni í Wales fyrir júdóþjálfara til kennslu fyrir börn og unglinga. Hann þjálfaði einnig lögreglu og sérsveitir hersins í Grikklandi, og verða slíkar sérhæfðar æfingar í boði á næstunni hjá júdódeild Selfoss.

Fyrri greinSpenna og sveiflur í Suðurlandsslagnum
Næsta greinHSU er ekki á neyðarstigi