Selfoss vann öruggan 0-2 sigur á KR í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í dag og tryggði sér þar með endanlega 3. sætið í deildinni.
„Við börðumst af hörku fyrir sigrinum. Aðstæðurnar voru erfiðar, það var rigning og mikið rok. Þú verður að vera skynsamur við svona aðstæður en við vörðumst vel og héldum okkar skipulagi og uppskárum sigur. Þetta var stór leikur fyrir bæði lið eftir að hafa mæst í bikarúrslitaleiknum. Við vildum sýna að við ættum sigurinn skilið og þær ætluðu að sjálfsögðu að hefna fyrir tapið. Við afgreiddum þetta vel og frammistaðan var fín í dag,” sagði Alli Murphy, markaskorari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik en þetta voru fyrstu mörk hennar fyrir félagið.
„Það var gaman að ná að skora fyrsta markið fyrir Selfoss. Það er alltaf gaman að skora en það eru fleiri búnir að byggja upp sóknina áður en ég klára. Ég fékk frábæra stoðsendingu frá Fríðu í fyrra markinu og það var frábært að ná að klára það færi,“ sagði Murphy ennfremur og bætti við að Selfyssingar væru ánægðir með að tryggja sér þriðja sætið í deildinni.
„Það er frábært fyrir okkur. Tvö efstu liðin voru búin að stinga af en þriðja sætið var laust og það er stór áfangi fyrir okkur að ná þriðja sætinu,“ sagði Murphy að lokum.
Fín tilþrif í bleytunni
Það var rok og rigning á köflum í Vesturbæ Reykjavíkur og völlurinn mjög blautur og þungur. Liðin gerðu sitt besta úti á vellinum og inn á milli sáust fín tilþrif af beggja hálfu.
Murphy kom Selfyssingum yfir á 20. mínútu þegar hún fékk góða sendingu innfyrir frá Hólmfríði Magnúsdóttur. Selfoss sótti fast næstu mínúturnar og uppskar annað mark sex mínútum síðar. Aftur var þar Murphy á ferðinni, nú með góðu skoti af vítateigsboganum.
Selfoss var sterkari aðilinn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en leikurinn var jafnari í seinni hálfleik. Bæði lið fengu ágæt færi án þess að þeim tækist að bæta við mörkum.
Selfoss í 3. sæti
Þegar ein umferð er eftir af úrvalsdeildinni er Selfoss í 3. sæti með 31 stig og ljóst að þriðja sætið verður hlutskipti liðsins í sumar, sem er langt umfram það sem sparkspekingar spáðu þeim í upphafi móts.