Borðaði sex sinnum á dag og æfði ellefu sinnum í viku

Um páskana fór fram Íslandsmótið í fitness og vaxtarrækt. Sunnlendingar áttu fulltrúa í þeirri keppni en Rakel Rós Friðriksdóttir stóð uppi sem sigurvegari í unglingaflokki í módelfitness.

Rakel er fædd og uppalin í Hveragerði og er aðeins 18 ára gömul. Foreldrar hennar eru þau Friðrik Friðriksson og Þórey Guðlaugsdóttir. Rakel segir að hún hafi alltaf haft áhuga á líkamsrækt og að hún hafi haft mikinn áhuga á fitness síðan hún sá slíka keppni fyrst. „Svo var þetta bara krefjandi og skemmtilegt verkefni,“ segir hún og brosir.

Erfitt niðurskurðarferli
Segja má að Rakel hafi byrjað undir- búning fyrir mótið í ágúst á síðasta ári þegar hún byrjaði að byggja upp vöðvamassa en svo tók við langt og strangt niðurskurðarferli. „Þetta var mikil vinna og í rauninni full vinna. Það tók mikið á andlega til að byrja með en svo vandist þetta fljótt. Ég fylgdi ströngu matarplani meðan á niðurskurðinum stóð þar sem ég var að borða sex sinnum yfir daginn og allt sem ég lét ofan í mig var viktað upp á gramm. Auk þess var ég að æfa ellefu sinnum í viku.“

Stressandi tilhugsun að koma fram á bikiníi
Rakel segir að til að byrja með hafi verið stressandi tilhugsun að koma fram á bikiníi en svo hafi það vanist. „Ég fór á nokkur pósunámskeið fyrir keppnina, meðal annars hjá Margréti Gnarr og svo eitt sem var haldið á vegum Iceland Fitness.“ Á keppnisdaginn sjálfan þurfti Rakel Rós að taka daginn frekar snemma. „Ég þurfti að vakna klukkan fimm til þess að setja á mig brúnkukrem en ég var búin að setja nokkrar umferðir á mig daginn áður. Eftir það fór ég í hárgreiðslu og förðun og var svo mætt í Háskólabíó klukkan tíu,“ segir Rakel.

Lætur gagnrýni ekki á sig f
Að sögn Rakelar var samkeppnin á mótinu verið mjög hörð. Því hafi komið Rakel skemmtilega á óvart að hún skyldi vinna. „Stelpan sem varð í öðru sæti var búin að taka þátt í tveimur mótum áður og lenda í þriðja sæti og svo í fyrsta sæti. Þannig já, það kom mér á óvart að ég skyldi vinna,“ segir Rakel sem lætur gagnrýnisraddir ekki á sig fá. „Ég fer stundum að hlægja þegar fólk segir við mig að stelpur í fitness séu bara að svelta sig því ég hef aldrei borðað eins mikið og eftir að ég byrjaði að æfa!“ Framundan hjá Rakel er Evrópumeistaramótið í fitness sem fram fer eftir tvær vikur og svo stefnir hún á að taka þátt á mótum bæði í október og nóvember.

Fyrri greinHeiða Björg kvödd og Árný Jóna boðin velkomin
Næsta greinSinueldar á tveimur stöðum