„Bólginn og aumur og varla talandi“

Sævar Þór Gíslason, fyrirliði Selfoss, steinrotaðist þegar hann lenti í samstuði við Daða Lárusson, markvörð Hauka, í leik liðanna í gærkvöldi.

Fjórtán mínútur voru liðnar af leiknum þegar Sævar slapp innfyrir og fékk Daða á móti sér. Sævar man ekkert eftir árekstrinum sem leit ekki vel út.

„Ég man eftir fyrstu mínútum leiksins og síðan rankaði ég bara við mér inni í klefa rétt fyrir hálfleik. Ég spurði Trausta sjúkraþjálfara hvað staðan væri og þá var hún 1-2 fyrir Selfoss, ég var víst búinn að spyrja hann að þessu þrisvar áður,“ sagði Sævar sem var nokkuð lengi að ná áttum enda höggið þungt.

„Ég er þokkalegur í dag, það brotnuðu tvær tennur og ég er bólginn og aumur og varla talandi. En við unnum leikinn og það er fyrir öllu. Menn voru að leggja sig fram og það sem ég sá af leikjum var bara jákvætt.“

Selfyssingar mæta Stjörnunni á útivelli á sunnudagskvöld og segir Sævar að tvísýnt sé með þátttöku hans í leiknum. „Við sjáum til, ég vona að ég geti verið með.“