Bökkuðum út úr alvöru handbolta

Selfyssingar töpuðu gegn FH í N1-deild kvenna í handbolta í íþróttahúsinu á Selfossi í dag. Leiknum lauk með sjö mark sigra gestanna, 21-28.

“Ég er ekki alveg nógu sáttur. Mér fannst við ekki vera tilbúnar í N1-deilarleik í dag. FH kom hingað og voru grimmar, gengu eins langt og leyfilegt var og við bökkuðum bara – því miður,” sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss, eftir leikinn.

Selfossliðið byrjaði leikinn mjög vel og þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var það með tveggja marka forystu, 10-8. “Mér fannst við frábærar fyrstu 20 mínúturnar. En við erum ekki ennþá í þeirri stöðu að geta spilað á þessum gæðum í 60 mínútur, það er bara þannig,” sagði Sebastian.

FH-ingar náðu hins vegar að laga stöðuna fyrir leikhlé. “Þjálfari FH tekur leikhlé og stappar stálinum í sína leikmenn. Segir þeim að auka hörkuna og auka hraðan,” sagði Sebastian.

Gestirnir skoruðu sex mörk gegn einum síðustu tíu mínútunar. Staðan í leikhléi 11-14 fyrir FH.

Selfoss skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks, en eftir það tóku stelpurnar frá Hafnarfirði öll völd á vellinum. Þær juku forystuna úr tveimur mörkum uppí tíu mörk á fyrstu 20 mínútum síðari hálfleiks.

Selfossliðið náði aðeins að laga stöðuna fyrir leikslok, en sigur FH var aldrei í hættu. Lokatölur 21-28.

“Ég er ekkert ósáttur við úrslitin á töflunni, þetta snýst ekkert um það,” sagði Sebastian sem fór yfir hlutina með leikmönnum eftir leik. “Við vorum bara að fara yfir hluti eins og hvernig við getum aðlagast þessum handbolta sem við höfum ekki spilað áður,” sagði Sebastian, en flestir leikmenn hans eru í 3. flokki og á sínu fyrsta tíambili í deild þeirra bestu.

“Við bara bökkuðum út úr alvöru handbolta í dag. En það er bara reynsluleysi og þekkingarleysi og nú lærum við bara,” sagði þjálfarinn að lokum.

Carmen Palamariu var markahæst með átta mörk, Þuríður Guðjónsdóttir kom næst með fjögur mörk, þá Tinna Soffía Traustadóttir með þrjú og Kristrún Steinþórsdóttir og Hildur Einarsdóttir skoruðu tvö mörk hvor.