Blóð, sviti og tár í nágrannaslagnum

Sigurjón Reynisson skoraði fyrir Árborg. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar tók á móti Árborg á Grýluvelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar en það var ekki að sjá í leiknum.

Viðureignir Hamars og Árborgar eru alltaf hörkuleikir og barist til síðasta blóðdropa. Þannig var það bókstaflega í kvöld en engum varð alvarlega meint af.

Árborgarar voru ógnandi á upphafsmínútunum og fengu vítaspyrnu á 15. mínútu þegar brotið var á Kristni Ásgeiri Þorbergssyni innan teigs. Kristinn Ásgeir fór sjálfur á punktinn en Stefán Þór Hannesson, markvörður Hamars, gerði vel og varði frá honum.

Hamarsmenn sváfu á verðinum strax í næstu sókn Árborgar og Sigurjón Reynisson kom gestunum yfir. Í kjölfarið héldu Árborgarar áfram að sækja en þegar um korter var eftir af fyrri hálfleik sóttu Hvergerðingar í sig veðrið og áttu nokkrar ágætar sóknir.

Staðan var 0-1 í hálfleik og það voru heimamennirnir sem mættu betur stemmdir inn í seinni hálfleikinn. Hamar sótti stíft og á 67. mínútu jafnaði Ingimar Þorvaldsson metin með góðu skoti. Gleði Hvergerðinga varði þó ekki nema í þrjár mínútur því á 71. mínútu slapp Kristinn Ásgeir Þorbergsson innfyrir Hamarsvörnina og kom Árborg í 1-2.

Lokakafli leiksins var æsispennandi. Árborgarar féllu aftar á völlinn og þungar sóknir Hamars dundu á vörn þeirra. Gestirnir héldu fengnum hlut þegar upp var staðið og fögnuðu 1-2 sigri.

Eftir leik kvöldsins er Hamar áfram á botni deildarinnar með 1 stig en Árborg er í 3. sæti með 18 stig.

Aron Ingi Þorkelsson, varnarmaður Árborgar, var sáttur í leikslok þrátt fyrir að hafa lent í hressilegu skallaeinvígi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGTS bætir við sig tíu rafmagnsrútum
Næsta greinTveir bikarmeistaratitlar og tólf HSK met