„Blóðug slagsmál um titilinn“

Keppnistímabil torfæruökumanna hefst á morgun. Í ár keppa átta Selfyssingar á Íslandsmótinu og einn þeirra, Hafsteinn Þorvaldsson, hefur titil að verja.

„Stefnan er auðvitað sett á að verja titilinn,“ sagði Hafsteinn í samtali við sunnlenska.is. „Það verður hins vegar ekki auðvelt og ég sé fram á blóðug slagsmál um titilinn. Þetta verður mjög jöfn keppni í sumar og ég gæti trúað að einir fimm ökumenn eigi góða möguleika á titlinum.“

Hafsteinn hefur gjörbreytt sínum bíl, Torfunni, í vetur. „Ég er búinn að taka hann svakalega í gegn, breyta fjöðruninni og setja í hann nýjan óbrjótanlegan millikassa frá Ljónsstöðum. Ég er búinn að reynsluaka aðeins og það er allt annað að keyra bílinn. Hann liggur eins og tyggjóklessa og gerir það sem ég vil að hann geri. Ég er eiginlega kominn á leiðarenda með þennan bíl, hann verður ekki betri,“ segir Hafsteinn.

Selfyssingar hafa komið sterkir inn í torfæruna á síðustu þremur árum en hverju liði fylgir töluverð útgerð og mannskapur. „Þetta er mjög skemmtilegur félagsskapur og það er rosalega góður mórall hjá okkur Selfyssingunum þó að við séum keppinautar. Menn hjálpa hver öðrum, skiptast á varahlutum og fylgjast vel með því hvað hinir eru að gera,“ segir Íslandsmeistarinn að lokum.

Keppnin á sunnudag fer fram í Kollafirði og eru átta Selfyssingar skráðir til leiks. Í sérútbúna flokknum keppa, auk Hafsteins, heimsmeistarinn Jón Ingileifsson sem ekur Kórdrengnum, Jóhann Rúnarsson á Trúðnum, Björn Bragi Sævarsson á Skjálfta, Benedikt Sigfússon á Hlunknum og Róbert Agnarsson á Heimasætunni.

Í gotubílaflokki mætir Haukur Þorvaldsson aftur til leiks á Silver Power auk nýliðans Ívars Guðmundssonar sem ekur nýuppgerðum Willis sem ber nafnið Kölski.

Keppni hefst kl. 13:00 og verða eknar sex brautir í báðum flokkum.