Blikar höfðu betur í bleytunni

Kvennalið Selfoss tapaði 1-2 þegar Breiðablik kom í heimsókn á blautan JÁVERK-völlinn í Pepsi-deildinni í knattspyrnu í kvöld.

Selfyssingar áttu mjög undir högg að sækja á fyrri hálfleik en Blikar fengu þó ekki færi fyrr en á 19. mínútu og nýttu þeir sér það til fullnustu. Léleg sending út úr Selfossvörninni rataði beint á Fanndísi Friðriksdóttur sem þakkaði fyrir sig með hnitmiðuðu skoti í vinstra markhornið.

Þó að Blikar hafi verið mikið með boltann voru færin ekki mörg. Boltinn fór þó einu sinni í nærstöngina á Selfossmarkinu beint úr hornspyrnu á 33. mínútu og fimm mínútum síðar slapp Aldís Kara Lúðvíksdóttir innfyrir Selfossvörnina en Blake Stockton henti sér fyrir skotið og varði í horn, 0-1 í hálfleik.

Breiðablik komst í 0-2 í fyrstu sókn síðari hálfleiks þegar Thelma Hjaltalín Þrastardóttir fékk boltann í vítateignum frá Aldísi Köru. Thelma sneri af sér varnarmann í þröngri stöðu og renndi boltanum framhjá Gaul í marki Selfoss.

Síðari hálfleikurinn var jafnari en sá fyrri og Selfyssingum gekk betur að halda boltanum innan raða liðsins. Þeim vínrauðu gekk þó illa að skapa sér færi og Blikar voru nær því að bæta við mörkum.

Á 54. mínútu skaut Rakel Hönnudóttir framhjá nánast opnu Selfossmarki eftir snarpa sókn og fyrirgjöf frá Aldísi Köru og rúmum tíu mínútum fyrir leikslok slapp Fjolla Shala innfyrir eftir mistök í vörn Selfoss en Alexa Gaul kom út á móti og gerði vel í að grípa boltann af tánum á henni.

Selfyssingar voru ekki hættir og sóttu í sig veðrið á lokakaflanum. Helsta hættan umm við Blikamarkið skapaðist eftir föst leikatriði og á 90. mínútu fengu Selfyssingar aukaspyrnu við miðlínuna. Gaul lét vaða inn í teig og eftir bægslagang í vítateignum náði Eva Lind Elíasdóttir bylmingsskoti úr teignum og boltinn söng í Blikamarkinu.

Selfyssingum vannst ekki tími til þess að bæta við mörkum og lokatölur urðu 1-2.

Selfoss er í 5. sæti deildarinnar með 23 stig og næsti leikur liðsins er bikarúrslitaleikurinn gegn Stjörnunni á Laugardalsvellinum næstkomandi laugardag.

Fyrri greinÞriggja leitað í Raufarhólshelli
Næsta greinFyrsta öryggismyndavélin tekin í notkun